15. október

Hakkaþon - lausnamót - nýsköpunarkeppni

Fyrsta Hacking Hekla fer fram á Suðurlandi dagana 16.-18. október í góðu samstarfi við Samtök Sunnlenskra Sveitafélaga og Nordic Food in Tourism. Nordic Food in Tourism er norrænt samstarfsverkefni sem er ætlað að vekja athygli á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Að sama skapi er fókus á að aukin áhersla verði lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt. Þema Hacking Hekla 2020 er “Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun” og verða þátttakendur hvattir til að hugsa þemað út frá mismunandi vinklum; samgöngur, ferðaþjónusta, náttúruvernd, svæðisbundin hráefni, framleiðsla og neysla matvara. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð.


Lausnamótið er fyrir alla sem vilja hugsa í lausnum og leysa vandamál og áskoranir sem finnast á Suðurlandi. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allir eru velkomnir og þetta er frábær leið til að efla skapandi hugsun og þjálfast í ferlinu að koma góðum hugmyndum í framkvæmd. Allar upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu SASS en þar fer einnig fram skráning.