29. október
Sveitarfélögin á Suðurlandi setja farsæld barna í forgang
Sögulegur áfangi náðist á ársþingi samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) en öll 15 sveitarfélögin í landshlutanum ásamt öllum þjónustuveitendum sem vinna að málefnum barna á Suðurlandi undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um stofnun Farsældarráðs Suðurlands. Þetta er í fyrsta sinn sem öll sveitarfélögin sameinast með þessum hætti um að setja velferð barna í forgang.
Markmið samstarfsins er að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur á Suðurlandi og tryggja að farsæld barna sé leiðarljós í allri stefnumótun og framkvæmd þjónustu í landshlutanum.
Samhæfð þjónusta og snemmtækur stuðningur
Ráðið er stofnað á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021). Það mun vinna að samhæfðri og snemmtækri þjónustu, öflugu forvarnarstarfi og tryggja faglegt samstarf milli allra þjónustuveitenda, hvort sem er á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila. Eitt af fyrstu stóru verkefnum ráðsins verður mótun fjögurra ára aðgerðaáætlunar sem byggir á svæðisbundnum styrkleikum og áskorunum.
„Brjótum niður veggi á milli kerfa“
Arna Ír Gunnarsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs á Suðurlandi, segir undirritunina marka tímamót fyrir málefni barna í landshlutanum.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref og sýnir einstakan samhug allra sveitarfélaga á Suðurlandi um að setja farsæld barna í algjöran forgang,“ segir Arna Ír. „Við erum ekki bara að tengja saman kerfi; við erum að brjóta niður þá veggi og síló sem oft eru á milli þjónustukerfa. Markmiðið er að tryggja að hvert einasta barn fái þann stuðning sem það þarf, þegar það þarf á honum að halda. Börn eru stærsta og mikilvægasta fjárfesting sveitarfélaganna og þessi samstaða mun tryggja að sú fjárfesting skili sér betur til barnanna okkar.“
Mannlegur og fjárhagslegur ávinningur forvarna
Í kynningu á ársþinginu kom fram að um 60% af fjármunum sveitarfélaga er varið í málefni barna og fjölskyldna, eða um 320 milljörðum á ári á landsvísu. Á sama tíma er áætlaður samfélagslegur kostnaður vegna afleiðinga áfalla í barnæsku um 100 milljarðar króna árlega. Með því að grípa börn snemma og fjárfesta í forvörnum er hægt að ná ómetanlegum árangri, bæði mannlega og fjárhagslega.
Þverfaglegt ráð 25 fulltrúa
Í Farsældarráði Suðurlands munu sitja um 25 fulltrúar. Ráðið mun tilnefna sérstakan framkvæmdahóp sem m.a. er ætlað að brúa bilið milli stefnumótunar og framkvæmdar.
Ásamt sveitarfélögunum 15 eiga aðild að farsældarráðinu allir þeir þjónustuveitendur sem vinna að málefnum barna á Suðurlandi. Þjónustuveitendurnir eru Lögreglustjórinn á Suðurlandi, Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Menntaskólinn að Laugarvatni, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu ásamt svæðisfulltrúum íþróttahéraða. Í ráðinu munu einnig sitja fulltrúar foreldraráða og ungmennaráða.
