Matarupplifun í Uppsveitum.
Fjögur fyrirtæki hvert með sína sérstöðu, en með samnefnarann "matarupplifun"  tengjast  sem lítill matarklasi og vinna saman. Fyrirtækin eru öll að vinna með veitingar/hráefni úr heimabyggð, svæðisbundnar matarhefðir og blanda við það fræðslu sem samanlagt verður að "Matarupplifun" fyrir innlenda og erlenda gesti. Fræðslan er um heimamenn, líf þeirra og atvinnu, búskap, graðyrkju, list og sérstöðu svæðisins varðandi matvælaframleiðslu.  Tækifæri felast í að bjóða upp á matarmenningarferðir um Uppsveitir Árnessýslu, bæta mat, menningu og fræðslu inn í ferðir um svæðið.

Fyrirtækin fjögur eru:  Efstidalur, Friðheimar, Hótel Geysir og Bragginn Birtingaholti sem öll bjóða gestum uppá mat ásamt fleiru. Staðirnir eru afar ólíkir en hafa allir sameiginlegan þráð sem er upplifun í kringum mat. Hvert fyrirtæki þróar sínar vörur og hugmyndir með áherslu á sérstöðu á hverjum stað og hafa ákveðin gæðaviðmið að leiðarljósi.  

Fyrirtækin eru staðsett á  „Gullna hringnum“ sem nú líkist fremur „Gullkeðju“  með nýjum hringleiðamöguleikum. Mikill fjöldi ferðamanna fer um svæðið en stundum of hratt.  Mikilvægt er að fá gesti til að fara hægar yfir, stoppa á fleiri stöðum, njóta og fræðast um sögu svæðanna.  Nútíma ferðamenn eru meðvitaðir um hollustu og vilja gjarnan kynnast matarmenningu á viðkomustað og smakka staðbundinn mat. Uppsveitir Árnessýslu er sannkölluð matarkista, því er kjörið að bæta matarupplifun inn í ferðalagið. Möguleikarnir eru fjölmargir, sumir færu á alla staðina í einni ferð en einnig er hægt að taka hringinn í fleiri áföngum.