2. nóvember

Minningarhátíð um Jón Arason 7.nóv.

Skálholt: Minningarhátíð um Jón Arason biskup 7. nóvember

Þess verður minnst í Skálholti mánudaginn 7. nóvember n.k. að þann dag árið 1550 var Jón Arason biskup á Hólum líflátinn ásamt sonum sínum tveimur.

Að þessu sinni verður dagskráin með eftirfarandi sniði:

Kl. 17 verður dagskrá til minningar um Jón Arason í Skálholtsdómkirkju. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar og Bjarni Harðarson fjallar um aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans Björns og  Ara út frá aðstæðum á staðnum. Vígslubiskup Kristján Valur Ingólfsson minnist þeirra feðga í bænargjörð. Samkomunni lýkur með blysför að minnisvarðanum um Hólafeðga.

kl. 20.00 verður söngdagskrá kirkjukóra úr Suðurprófastdæmi í Skálholtsdómkirkju.

Þetta er árleg kóradagskrá á minningardegi um Jón biskup Arason og í ár koma fjórir kirkjukórar sem syngja sameiginlega og eigin dagskrá, auk þess að syngja með kirkjugestum.

Vígslubiskup, prófastur og prestar munu lesa ritningarlestra og bænir.

Kórarnir sem syngja eru Kór Selfosskirkju, stjórnandi Edit Molnar, Kór Huna- og Hrepphólakirkju, stjórnandi Stefán Þorleifsson, Kór Odda- og Þykkvabæjarkirkju, stjórnandi Kristín Sigfúsdóttir og Skálholtskórinn, stjórnandi Jón Bjarnason. Umsjón með dagskránni hefur Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Allir eru hjartanlega velkomnir og er aðgangur ókeypis. Á eftir verður hægt að kaupa veitingar í Skálholtsskóla.